Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir Íslendinga geta gleymt því að hér verði alþjóðleg fjármálamiðstöð, a.m.k. á meðan krónan er í notkun sem þjóðargjaldmiðill.

„Það þurfa að vera ákveðnar varúðarreglur í gildi sem takmarka gjadleyrisáhættu og alþjóðleg umsvif bankakerfisins. Við getum gleymt því að Íslandi verði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Okkar alþjóðlega fjármálamiðstöð verður alltaf erlendis, að minnsta kosti svo lengi sem við erum með eigin mynt, ef ekki lengur,“ segir Már í viðtali í tímaritinu Hjálmar - blaði hagfræðinema við Háskóla Íslands. Blaðið fylgdi með Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.

Már heldur áfram:

„Krónan mun kosta okkur eitthvað en þannig er það bara. Við þurfum að huga að því hvað er hagkvæmt að gera hér á landi.“

Már er sömuleiðis spurður að því hvort framtíð Íslands ráðist ekki talsvert af því hvaða gjaldmiðill verður notaður hér á landi. Svo telur hann ekki vera:

„Áhrifum krónunnar er ofgert. Það er enginn vandi að búa til kreppu með hvaða gjaldmiðli sem er. Maður tekur bara eins mikið af lánum og maður getur og fjárfestir lánsféð í eins vitlausum hlutum og hægt er. Það er óháð gjaldmiðli. En auðvitað getur gjaldmiðillinn haft einhver áhrif. Rannsóknir sýna að sameiginlegur gjaldmiðill stuðlar að meiri efnhagslegri og fjármálalegri samþættingu yfir landamæri. Hin fjármálalega samþætting verður áhættuminni ef það fer saman með sameiginlegu fjármálakerfi og sameiginlegum seðlabanka sem er lausafjárveitandi og lánveitandi til þrautavara. Þar með er ekki sagt að það sé ómögulegt að hafa efnahagslegan stöðugleika með eigin mynt. Saga annarra þjóða sýnir að það er hægt. Vð ættum að geta það sama ef við högum okkur með ábyrgum hætti og sættum okkur við þær takmarkanir sem eigin mynt í mjög litlu landi gæti kallað á.“