„Við höfum tækifæri til að setja leiklist inn í myndlistarsafn eða bókasafn og snúa hlutunum við. Fjölbreytni listahátíðar í Reykjavík er hennar helsti styrkleiki,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Hún bendir á að hátíðin sé ekki bundin við eina listgrein eða húsnæði og geti því reynt ólíkar leiðir.

Á sjötta hundrað listamanna taka þátt í Listahátíð í Reykjavík sem fram fer 17. maí til 2. júní næstkomandi. Ef marka má síðustu ár má í heild búast við 25.000-30.000 gestum á hátíðina og leggja skipuleggjendur hennar þessa dagana lokahönd á undirbúninginn.

Verkefnin sem taka þátt í þessari tuttugustu og sjöundu listahátíð í Reykjavík eru þrjátíu og tvö talsins en í mörgum tilvikum er um að ræða eina yfirskrift á fjölþættu verkefni. Listahátíð í Reykjavík í ár fjallar um hið skapandi rými þar sem listgreinar mætast. Áherslan er á tilurð nýrra verka og endurgerð eldri verka, á nýsköpun, en einnig á söguna sem uppsprettu andgiftar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.