Fram kom á símafundi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, með greiningaraðilum í dag að deCODE hyggst reyna að fá samþykki frá lyfjaeftirlitinu (FDA) í Bandaríkjunum fyrir því að minnka fjölda þáttakenda í síðustu prófunum sínum á nýju hjartalyfi, svokölluðum fasa III. Hingað til hafa slíkar prófanir farið fram á 15-20 þús manns en deCODE telur að það þurfi einungis 2-3 þúsund manns til að fá áreiðanlegar niðurstöður.

Fram kom á símafundinum að fundur væri ákveðinn með FDA í byrjun nóvember og Kári var bjartsýnn á viðtökur FDA við þessum áætlunum eins og rakið er í Hálffimm fréttum KB banka. Viðtökur FDA skipta miklu máli þar sem ekki einungis er miklu meiri kostnaður vera samfara hefðbundinni úrtaki upp á 15 þús manns, heldur verður væntanlega líka erfitt að finna svo stóran hóp sem uppfyllir skilyrðin sem deCODE hefur gefið sér, þ.e. hafa þá erfðaþætti sem deCODE hefur tengt hjartaáföllum.