Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra getur ekki svarað fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um það hver aukalegur kostnaður íslenska ríkisins sé vegna þess að ríkið hafi greitt niður lán Norðurlandanna með skuldabréfaútgáfu í bandaríkjadölum.

„Hvað þarf íslenska ríkið að greiða aukalega á ári í vaxtakostnað af erlendum lánum vegna þess að skuldabréfaútgáfa upp á einn milljarð bandaríkjadala á 6% vöxtum var nýtt til að greiða niður lán Norðurlandanna sem voru á gjalddaga á árunum 2016–2021 og báru meðalvexti upp á 3,2%?“ sagði Vigdís í skriflegri fyrirspurn til fjármálaráðherra.

Í svari ráðherra segir að megintilgangur lántökunnar með útgáfu dollarabréfs hafi verið að styrkja aðgang ríkissjóðs að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Aðgengi ríkissjóðs að erlendum mörkuðum sé meginforsenda fyrir afnámi gjaldeyrishafta auk þess sem skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs liðki fyrir fjármögnun annarra innlendra á erlendum mörkuðum.

Aftur á móti segir ráðherra að lánin séu ósambærileg og því ekki hægt að bera saman kostnað við þau. „Þar sem lánin sem spurt er um eru ósambærileg og nokkur óvissa ríkir um þróun á erlendum vaxta- og lánsfjármörkuðum á næstu árum, er ekki unnt að svara þeirri spurningu hvað þetta kosti ríkið á hverju ári. Spár viðurkenndra aðila benda þó eindregið til þess að breytilegir vextir muni hækka,“ segir í svarinu.