Um tuttugu íslenskir sjómenn sem eiga lögheimili utan landsteina eru nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að einstaklingarnir séu um tuttugu talsins.

„Þessi mál eru í rannsókn hér sem þýðir að það er verið að reyna að ná utan um það og sjá hvernig þetta liggur. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um annars vegar hvort það komi til endurálagningar skatta og hins vegar hvort það séu forsendur til refsimeðferðar. Ef niðurstaðan er sú að þetta hafi verið gert af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, eins og segir í lögunum, þá geta menn átt von á sekt til viðbótar sem er bundin við fjárhæðina og er þá allt að tvöföld sú upphæð sem er undan dregin. Eða í allra alvarlegustu málunum getur það farið í ákærumeðferð fyrir embætti sérstaks saksóknara.“