Gert er ráð fyrir að hlutabréf Hampiðjunnar verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar þann 9. júní næstkomandi en Hampiðjan hefur ýsingu vegna almenns útboðs og fyrirhugaðrar skráningar á aðalmarkað.
Félagið hefur verið skráð á First North markaðnum frá árinu 2007. 85 milljón nýir hlutir í félaginu verða boðnir til sölu í almennu útboði, sem jafngildir 13,37% af heildarhlutafé eftir hlutafjárhækkun þess efnis.
Í tilefni þess var Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar í viðtali í hlaðvarpsþætti Fortuna Invest en þar fór hann yfir verkefni framtíðarinnar hjá fyrirtækinu.
Hampiðjan vinnur nú að því að þróa ljósleiðarakapal sem þræddur er í veiðarfærin og steyptur inn í plast. Hjörtur segir að um algjöra byltingu sé að ræða þegar það kemur að botnfiskveiðum.
„Ljósleiðarar hafa mikla flutningsgetu og geta flutt eina bíómynd á tveimur sekúndum. Það er því hægt að hafa ótal margar myndavélar við trollið til að geta séð í rauntíma hvaða fiskur er að koma inn í það. Það er verið að vinna að því að þróa myndgreiningartæki sem tekur mynd af fiskunum og út frá myndinni er stærð og lengd fisksins mæld og þyngd hans reiknuð út og ákveðið hvort vilji sé til að veiða fiskinn eða ekki. Þannig væri í framtíðinni hægt að stilla búnaðinn inn á það að veiða eingöngu t.d. þorsk af ákveðinni stærð. Þetta getur gjörbylt greininni þegar kemur að botnfisksveiðum en gerist ekki á næsta ári en gæti tekist á nokkrum árum” segir Hjörtur í samtali við Fortuna Invest.
Ljósleiðarakapall Hampiðjunnar hlaut verðlaun fyrir bestu nýjungina á sjávarútvegssýningu í september sl.
Í viðtalinu fer Hjörtur yfir víðan völl en hann segir m.a. að mikill metnaður sé í fyrirtækinu fyrir endurvinnslu en gömul veiðifæri fyrirtækisins eru mikið endurnýtt, m.a. innréttingar og mottur í nýjum rafbílum framleiddum af BMW. Fyrirtæki séu í mörgum tilvikum til í að greiða hærra verð fyrir endurunnið efni sem er t.d. það sem BMW er að gera.
„Í dag eru búið að finna endurvinnsluleiðir fyrir nánast allt efni í framleiðslunni. Veiðarfæraiðnaðurinn er komin lengra en margar aðrar iðngreinar í að endurvinna sitt efni. Framtíðarsýnin er að geta hreinsað eldri veiðarfæri það vel að það sé hægt að nota þau í ný veiðarfæri” segir Hjörtur.
Hampiðjan framleiðir í dag efni fyrir veiðarfæri í verksmiðju sinni í Litháen og selur til fyrirtækja einkum í sjávarútvegi, bæði sem fullbúin veiðarfæri, íhluti í veiðarfæri og kvíar fyrir fiskeldi. Einnig framleiðir félagið vörur fyrir olíuiðnað, djúpsjávarverkefni og fleira.

„Ef það gefast tækifæri til að kaupa önnur fyrirtæki munum við hiklaust gera það”
Eftir yfirtöku Hampiðjunnar á norska félaginu Mørenot fyrr á þessu ári starfa 2000 starfsmenn hjá fyrirtækinu.
Spurður út í samlegðartækifærin svarar Hjörtur að fyrirtækin séu að mörgu leyti lík og vinni á mörgum landfræðilegum mörkuðum.
„Það sem hefur komið okkur á óvart er að þegar við tókum við rekstrinum sjáum við enn fleiri möguleika en við sáum í upphafi, það hefur verið mjög jákvætt að sjá að það leynast enn fleiri samlegðartækifæri en við gerðum ráð fyrir.”
Spurður út í framtíðina segir Hjörtur stóra verkefnið næstu árin vera að samþætta starfsemi félaganna og ná út allri samlegðinni sem að þar leynist. Það muni þó ekki stoppa Hampiðjuna í því að halda áfram að þróa eins og venjulega. “
„Ef það gefast tækifæri til að kaupa önnur fyrirtæki munum við hiklaust gera það, við vitum af fyrirtækjum þar sem komið er að kynslóðaskiptum og eru áhugaverðir kostir og við munum feta þá braut áfram. Það eru spennandi ár fram undan enda mikið af áhugaverðum verkefnum sem við þurfum að vinna.”
Hægt er að hlusta á viðtalið á öllum helstu hlaðvarpsveitum