Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist geta fallist á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Hann horfir hýru auga til samstarfs við Samfylkingu og VG eftir kosningar en segir að fyrsta skref í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna sé að þeir nái lendingu í Evrópumálum.

„Ég held að ef til þess kæmi þyrfti fyrsta skrefið í stjórnarmynduninni að vera það að þessir tveir flokkar [Samfylking og VG] ræddu þetta mál. Hugsanlega eru þeir búnir að því að einhverju leyti og búnir að komast að einhverri lausn á borð við þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Við gætum skrifað upp á það en ég held að eðlilegt fyrsta skref í næstu stjórnarmyndunarviðræðum verði að þessir tveir flokkar gera þetta upp á milli sín."

Spurður hvort Framsókn ætli þá bara að bíða eftir því að Samfylking og VG komist að samkomulagi og stíga svo inn svarar hann:  „Við gætum fallist á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Það er mín skoðun að minnsta kosti. Ég tala bara fyrir sjálfan mig í því sambandi. Mér hefur heyrst á Steingrími J. Sigfússyni að þetta gæti verið lendingin."

Ítarlega er rætt við Sigmund Davíð í Viðskiptablaðinu sem kom út í kvöld.