Rekstur bresku verslanakeðjunnar Iceland hefur gengið vel það sem af er þessu ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði á síðasta ári nam 163 milljónum punda samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Baldvini Valtýssyni, sem stýrir eignum þrotabús Landsbankans í Englandi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru miklar vonir bundnar við að þessi stærsta einstaka eign þrotabúsins aukist að verðmæti og skili miklu upp í forgangskröfur og þar með Icesave-samningana.

Um það eru þó deildar meiningar og sumir hafa haldið því fram að heppilegt sé að selja Iceland sem fyrst þar sem rekstrarsaga þess sé mjög sveiflukennd.

Að sögn Lárentsínusar Kristjánssonar, formanns skilanefndar Landsbankans, er þetta gríðarlega öflugt og stórt félag og er stefnan að selja það þegar aðstæður bjóða upp á slíkt. Hann sagðist þó tæpast sjá fyrir sér að það geti gerst á næstu tveimur til þremur árum og styður það skoðanir þeirra sem telja erfitt að fá kaupendur að félaginu af samkeppnisástæðum.

Að sögn Baldvins eru fleiri möguleikar til að hafa arð af fjárfestingunni en með sölu. „Arðgreiðsla er einn möguleiki til að fá endurgreidda fjárfestingu og ef tækifæri gefast munum við skoða það,“ sagði Baldvin.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .