Landsframleiðsla á hvern Katalóna er á pari við Frakka, Katalónía er eitt auðugasta hérað Spánar og þjóðarvitundin er sterk, höfuðborgin Barselóna er heimsborg og innviðir landsins og stofnanir fyrirtak. Að því leyti er Katalónum fátt að vanbúnaði til þess að verða eitt af smáríkjum Evrópu.

En það er ekki sama hvernig það er gert og það eru ýmsir agnúar fyrirsjáanlegir á því ferli öllu. Þó að Katalónía hafi um margt kröftugt atvinnulíf, gríðarlega umfangsmikinn ferðaiðnað, stóra höfn og öflugar samgöngur, þá er ekki allt í lukkunnar velstandi. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er heil 34% og þó að það sé lágt á spænskan mælikvarða, þá er það mikill dragbítur á efnahagslífið. Heimastjórnin segir hins vegar að henni muni veitast létt að vinda ofan af því þegar hún losnar undan oki Spánar.

llar bjartsýnisspár um sjálfstæða Katalóníu byggja á því að Spánn sýni hinu nýja ríki fulla vinsemd. Það er mikil bjartsýni. Spánn getur gert þeim margs konar skráveifur við aðskilnað- inn, torveldað inngöngu þeirra í alþjóðastofnanir og þar fram eftir götum. Katalónía er töluvert skuldug, skuldar um 35% VLF og megnið til spænsku stjórnarinnar. Það gæti svo gert uppgöngu hins nýja ríkis á alþjóðlegan lánamarkað mjög erfiða.

Og það er engan veginn víst ef í harðbakkann slær, að Katalónar vilji borga upp skuldina við Madríd. Umfram allt felst vandi Katalóna í afstöðu Evrópusambandsins. Þeir munu illa geta orðið sjálfstætt ríki án skjóls ESB, en það hefur verið mjög áhugalaust um það. Þvert á móti vill ESB alls ekki lyfta undir neinar sjálfstæðishugmyndir af ótta við að kynda undir ámóta kröfum í ýmsum öðrum ríkjum sambandsins.

Það gæri því vel farið svo að hins sjálfstæða Katalónía yrði einangruð, utan evrópskra múra, án hins evrópska gjaldmiðils, og sennilega án viðurkenningar flestra nágrannaríkja sinna, en með fjölda Spánverja innan landamæranna. Sjálfstæðið er meira en að segja það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .