Íbúðalánasjóður þarf 12 til 14 milljarða króna til að ná lögbundu eiginfjárhlutfalli. Staða hans til að mæta afborgunum af lánum er þrátt fyrir það mjög sterk. Hann á 54 milljarða í lausu fé og hefur ekki þurft að sækja sér fjármagn á markaði síðan í janúar á þessu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum þar sem því er vísað á bug að hann eigi erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og standi frammi fyrir greiðslufalli. Í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar í morgun kom fram að hætt sé við að sjóðurinn geti ekki greitt af útgefnum íbúðabréfum bregðist yfirvöld ekki við í tæka tíma. Þá var haft eftir Sigurði Erlingssyni, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, að komi tillögur um úrlausn á vanda Íbúðalánasjóðs ekki fyrir lok næstu viku geti sjóðurinn lent í vandræðum. Vinnuhópur fjármálaráðuneytis átti að skila tillögum til úrlausnar á vanda sjóðsins 1. október síðastliðinn. Bloomberg hefur jafnframt eftir sérfræðingi hjá Moody's, að ekki megi búast við öðru en að ríkið hlaupi undir bagga með sjóðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Íbúðalánsjóði, að beðið sé ákvörðunar stjórnvalda með eiginfjárframlag. Sú bið hafi engin áhrif á getu hans til að standa við skuldbindingar sínar. Ákvörðun stjórnvalda um að auka eigið fé sjóðsins snúi að afskriftaþörf vegna niðurfærslu lána og hafi ekkert með greiðslugetuna að gera.