Það tæki ungt par með barn sem býr í leiguhúsnæði, á algengasta tekjubilinu á Íslandi, rúman áratug að safna sér fyrir útborgun að fyrstu íbúð. Þetta kemur fram í Helgarblaði DV . Mörgum getur reynst erfitt og jafnvel ómögulegt að kaupa sér húsnæði vegna strangara greiðslumati, hærra húsnæðisverði og kröfu um hærra eiginfjárframlag.

Í dæmi DV er um að ræða ungt par með barn á leikskóla eða í dagvistun sem á lítinn bíl og býr skuldlaust í leiguhúsnæði, en á engan sparnað. Parið vill kaupa sína fyrstu íbúð fyrir 25 milljónir króna. Búist er við að tekjur fjölskyldunnar séu útborgaðar 430.000 krónur á mánuði, neysluviðmið sé 130.000 krónur og að afgangurinn í hverjum mánuði sé 40.000 krónur.

Stóru bankarnir þrír lána fyrir allt að 85 prósent af verði íbúðarinnar en parið þarf sjálft að brúa 15-20 prósent kaupverðsins með eigin fé. Miðað við það að geta lagt 40 þúsund krónur til hliðar í hverju mánuði, eða 480 þúsund krónur á ári tæki það parið tíu og hálft ár að safna sér fyrir útborguninnni. Jafnvel ef parið legði fyrir 100 þúsund krónur á mánuði tæki það samt rúmlega fjögur ár.