Nýleg könnun í Bretlandi sýndi fram á að aðeins 28% viðskiptaleiðtoga í Bretlandi höfðu trú á því að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands gæti leitt þjóðina í gegnum þann efnahagsvanda sem nú steðjar að.

Þetta kemur fram á vef The Daily Telegraph en í ljósi þessa hefur tölvuleikjafyrirtækið T-Enterprice í Glasgow búið til net-tölvuleik þar sem þátttakendum er boðið að taka að sér hlutverk Gordon Brown – svo langt sem það nær – í lausafjárkrísunni.

Leikurinn, sem heitir Credit Crunch Chaos , gengur út á það að þú ert Gordon Brown og þarf að hoppa á eins marga 50 punda seðla og þú getur og merkja þá með breskum fána. Þannig munt þú ná að tryggja Bretlandi það fjármagn.

Á hliðarlínunni stendur þó David Cameron, leiðtogi Íhaldsmanna tilbúinn til að segja fjölmiðlum frá því ef, og hugsanlega þegar, þér mistekst.

Sadia Chishti, framkvæmdastjóri T-Enterprise sagði í samtali við Telegraph að viðskiptalífið í heild væri smátt og smátt að missa trú á Brown sem leiðtoga.

„Þessi leikur gefur þér tækifæri á að taka að þér hlutverk forsætisráðherrans og sjá hvort þú getir gert betur,“ segir Chishti.

„Fyrir utan það að hafa skemmtanagildi opnar það kannski augu fólks fyrir því hvað hlutverk Gordon Brown er í raun erfitt.“

Hér má spila leikinn góða.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem T-Enterprise býr til kaldhæðnislegan leik um Gordon Brown. Eins margir muna eflaust eftir komu upp tvö alvarleg tilviki með skömmu millibili nýlega þar sem opinberir starfsmenn týndu tölvugögnum með viðkvæmum persónuupplýsingum, meðal annars skatta- og fjármálaupplýsingum og heilsufari.

Í kjölfarið bjó T-Enterprise til leik þar sem þátttakendur áttu, sem Gordon Brown,  að eyða viðkvæmum gögnum áður en opinberir starfsmenn kæmu og tækju þau – og týndu þeim svo.