*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 11. maí 2018 09:55

Geymslum stefnt vegna brunans

Fórnarlömb brunans í Miðhrauni í Garðabæ hyggjast stefna eigendum Geymslna og fara fram á bætur.

Ritstjórn
Margir töpuðu miklum verðmætum í brunanum í Miðhrauni í Garðabæ í byrjun apríl.
Þröstur Njálsson

Hópur fólks sem missti eigur sínar í brunanum hjá Geymslum í Miðhrauni í Garðabæ í byrjun apríl undirbýr málsókn á hendur eigendum Geymslna. Í tilkynningu frá forsvarsmönnum hópsins kemur fram að um prófmál verði að ræða þar sem látið verði reyna á skaðabótaskyldu þeirra sem beri ábyrgð á því tjóni sem þar varð.

Forsprakkar hópsins segja lögmenn sem rætt hafi verið við telja þá sem urðu fyrir tjóni í brunanum séu í sterkri stöðu til að fá meiri bætur en boðist hafa til þessa og að ábyrgð Geymslna verði staðfest.

Boða á til fundar mánudaginn 14. maí klukkan 20 á 2.hæð Ásvallalaugar í Hafnarfirði fyrir þá sem eiga kröfur í málinu. Fullyrt er að kostnaður vegna væntanlegrar málshöfðunar verði hóflegur og því fleiri sem taka þátt í málinu, því lægri verði kostnaðurinn sem hver og einn þurfi að bera.