Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar um sýknu Geymslna ehf. af kröfum tveggja leigjenda sem höfðu orðið fyrir tjóni þegar húsnæði félagsins í Garðabæ, sem það hafði á leigu frá félaginu F11 ehf., brann vorið 2018. Ljóst er að fjöldi leigjenda er í sömu stöðu og mun þurfa að leita annað til að fá tjón sitt bætt.

Bruninn í Miðhrauni ætti að vera flestum í fersku minni en þar höfðu Geymslur leigt út rými fyrir fólk til að geyma hina ýmsu muni í. Þegar húsið fuðraði upp byggði félagið hins vegar á því að það bæri ekki skaðabótaábyrgð á tjóninu enda hefði skýrt verið kveðið á um í leigusamningi að félagið myndi ekki bera ábyrgð á tjóni sem kynni að verða á munum.

Þessu vildi hluti leigjenda ekki una og höfðaði mál til viðurkenningar á bótarétti. Byggðu þau á því að leigusamningurinn félli undir lög um þjónustukaup og því hefði félaginu verið óheimilt að setja skilmála í samninginn sem kveða á um verri rétt en lögin hafa að geyma. Geymslur töldu á móti að um húsaleigusamning hefði verið að ræða og að ekki væri hægt að rekja tjónið til saknæmrar háttsemi félagsins.

Stóð eiganda nær að gera úrbætur

Í dómi Hæstaréttar segir að að virtum skilmálum samningsins beri hann einkenni húsaleigusamnings en ekki þjónustukaupasamnings. Var það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins og ekki talið að fólkið ætti bótarétt á þeim grundvelli.

Þá var því einnig hafnað að víkja samningnum til hliðar að hluta eða heild þar sem samningsskilmálar hefðu verið ósanngjarnir. Sagði rétturinn að umræddur samningur væri einfaldur í sniðum og ekki sýnt fram á að hann væri andstæður almennum samningsskilmálum í slíkum viðskiptum. Sú staðreynd að hann var saminn einhliða af Geymslum þótti ekki geta hnikað því.

Í málinu var að endingu byggt á því að breytt nýting hússins, úr kvikmyndaveri í lager og vörugeymslu, hefði falið í sér aukna eldhættu sem kallað hefði á frekari brunavarnir. Skortur á slíku átti, að mati leigjendanna, að leiða til þess að Geymslur hefðu vanrækt skyldu sína og því átt að bera ábyrgð á tjóni þeirra.

„Niðurstöðu [skýrslu Mannvirkjastofnunar] um að rétt hefði verið að setja upp vatnsúðakerfi fyrir mikla áhættu í miðrými hússins á þeim tíma sem það var tekið undir vörulager verður að skilja svo að hún hafi beinst að eiganda og forráðamanni þess húsnæðis sem hefðu átt að gera sér fulla grein fyrir auknu brunaálagi við þá breytingu,“ segir í dóminum. Þar sem Geymslur hefði ekki verið eigandi hússins gat félagið ekki borið ábyrgð á þeirri vanrækslu.