Bílastæðasjóður hefur samið við íslenska fyrirtækið Dótel um uppsetningu á geymsluskápum þess í bílastæðahúsum í Reykjavík.

Fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri geymsluskápa fyrir farangur og geta nú ferðamenn og aðrir viðskiptavinir nú brátt nýtt sér þjónustu þess á þremur stöðum í Reykjavík að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Þegar í bílastæðahúsinu Traðarkoti

„Skápar hafa verið settir upp í bílastæðahúsinu Traðarkoti við Hverfisgötu 20 en bráðlega verður einnig hægt að finna geymsluskápa fyrirtækisins í bílastæðahúsinu á Vesturgötu og í bílastæðahúsinu í Kolaportinu,“ segir í tilkynningunni.

Valgeir Bjarnason, framkvæmdastjóri Dótel, segir þörfina fyrir þessa þjónustu vera mikla og að skáparnir séu mikið notaðir af bæði ferðamönnum og Íslendingum.

Gerir leiguferlið fyrir Airbnb íbúðir einfaldara

„Skáparnir sem eru eins konar hótel fyrir dót viðskiptavina okkar eru nýttir í ýmislegt, til dæmis af þeim sem landið sækja og geyma farangurinn sinn á meðan þeir njóta þess sem Reykjavík og nágrenni hefur upp á að bjóða sem og heimamönnum á hraðferð út á land eða til útlanda sem þurfa kannski að koma pökkum til ástvina sinna, er haft eftir Valgeir í tilkynningunni.

„Eins hefur með aukningu á útleigu svokallaðra Airbnb íbúða fjölgað þeim tilfellum sem lyklar eru geymdir hjá okkur fyrir leigutaka íbúða en það gerir leiguferlið einfaldara fyrir bæði leigusala og leigutaka. Þetta er fljótleg, örugg og þægileg leið sem við bjóðum viðskiptavinum okkar upp á.“