Skipin Geysir og Saga hafa yfirgefið Namibíu síðustu daga með litlum fyrirvara að því er þarlendir fjölmiðlar segja frá, en bæði eru þau í eigu útgerða tengdum umsvifum Samherja í landinu. RÚV greinir fyrst frá hér á landi.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í fréttum hafa komið fram ásakanir um spillingu og mútur ráðamanna í landinu sem Samherji hafi nýtt sér, en því til viðbótar hefur skipstjóri Heineste, viðurkennt ólöglegar veiðar. Heineste var í eigu útgerðar tengdri Samherja en hefur verið selt til rússnesks fyrirtækis.

Geysir er sagt hafa yfirgefið landið í gærkvöldi og skilið eftir um 100 áhafnarmeðlimi, en það hafi látið þá vita að það kæmi til baka þegar það fengi úthlutað nýjum kvóta. Fyrir helgi var sagt frá því þegar Saga fór, en þá fengu áhafnarmeðlimir sms um að sækja eigur sínar því það væri á leið til Las Palmas í viðgerð.

Í frétt namibíska fréttamiðilsins Neweralive er sagt frá því að eftirlitsnefnd um spillingu hafi mælt til þess við stjórnvöld í landinu að leyfa ekki neinum skipum eða einstaklingum tengdum spillingarásökunum á hendur Samherja að yfirgefa landi.