Geysir Green Energy (Geysir), Reykjanesbær og kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy Corporation (Magma) hafa lokið viðskiptum vegna kaupa Geysis á 34% hlut í HS Orku af Reykjanesbæ.

Ennfremur kaupir Magma 8,6% hlut í HS Orku af Geysi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geysi Green Energy en með sölunni lýkur fyrri áfanga af tveimur í sölu Geysis á alls 10,8% hlutafjár í HS Orku til Magma fyrir rúma þrjá milljarða króna sem félagið staðgreiðir.

Fram kemur að eftir sölu hlutarins í dag er Geysir eigandi 57,4% hlutafjár í HS Orku hf. en seinni áfangi viðskiptanna er sala á 2,2% hlut að auki til Magma í byrjun næsta árs. Að þeim viðskiptum loknum verður Geysir eigandi 55,2% hlutar í HS Orku.

Kaup Magma á hlut í HS Orku koma í kjölfar samkomulags Reykjanesbæjar og Geysis um breytt eignarhald á HS Orku og HS Veitum. Með því samkomulagi eignaðist Geysir nær allan hlut Reykjanesbæjar í HS Orku en lét á móti hlut sinn í HS Veitum. Reykjanesbær á nú 66,75% hlut í HS Veitum og 0,75% hlut í HS Orku.