Geysir Green Energy (Geysir), hefur selt hlut sinn í bandaríska jarðhitafélaginu Ram Power Corp. Salan er hluti af áætlun til að stuðla að lækkun skulda félagsins segir í tilkynningu. Með viðskiptunum losar Geysir allan hlut sinn í jarðhitafélaginu Ram Power sem er á hlutabréfamarkaði í Toronto, Kanada en félagið er með höfuðstöðvar í Reno í Nevada fylki í Bandaríkjunum. Söluverðmæti bréfanna er um 11 milljónir kanadískra dollara.

Salan er tengd ákvörðun stjórnar Geysis í samráði við viðskiptabanka félagsins frá því í lok 2009 að vinna markvisst að lækkun skulda félagsins með sölu eigna þess á næstu misserum. Ram Power Corp. er jarðhitafélag sem vinnur að uppbyggingu og rekstri jarðhitavirkjana til raforkuframleiðslu í Norður- og Suður-Ameríku. Geysir varð kjölfestufjárfestir í Ram Power Inc. í nóvember 2008 stuttu eftir stofnun þess. Í október 2009 sameinaðist Ram Power Inc. þremur öðrum kanadískum jarðhitafélögum og var stuttu síðar sett á markað í Kanada. Heildarverðmæti félagsins á markaði í dag er um 450 milljónir kanadískra dollara.

Um Geysi Green Energy

Geysir Green Energy er fyrirtæki á sviði sjálfbærrar orkuvinnslu. Stefna þess er að efla íslenska orkustarfsemi og nýta íslenska jarðhitaþekkingu erlendis. Helstu eignir Geysis eru Jarðboranir hf og 57,4% hlutur í HS Orku hf. Geysir hefur unnið með góðum árangri að uppbyggingu hitaveituverkefna í Kína auk jarðvarmaverkefna í Þýskalandi, Bandaríkjunum og á Filippseyjum. Geysir er einn af stofnaðilum Keilis, menntastofnunar á háskólastigi á Suðurnesjum.  Dótturfélag Geysis, Enex ehf., lauk á síðasta ári byggingu 9,3 MW jarðvarmavirkjunar í El Salvador og er virkjunin nú í fullum rekstri segir í tilkynningu.