Geysir Green Energy (GGE) tapaði 17,8 milljörðum króna á árinu 2009. Það tap bætist við 16,7 milljarða tap félagsins á árinu 2008. Þetta kemur fram í ársreikningi GGE fyrir árið 2009.

GGE fór mikinn á árunum fyrir hrun og var þá meðal annars að stórum hluta í eigu FL Group. Nú heldur Íslandsbanki, helsti lánardrottinn þess, á nánast öllum eignarhlutum í GGE. Í ársreikningnum kemur fram að eignir GGE séu metnar á 22,6 milljarða króna í árslok 2009 en að skuldir þess séu 30,6 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var því neikvætt um 8 milljarða króna í lok ársins 2009. Í maí síðastliðnum seldi GGE langverðmætustu eign sína, 52,3% eignarhlut í HS Orku, til Magma Energy á 16 milljarða króna.