Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, segir að félagið telji að það geti nýtt sér forkaupsrétt að hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja. Hins vegar hafi engin ákvörðun verið tekin um hvort það verði gert.

Hafnarfjarðarbær ákvað, eins og kunnugt er fyrir jól, að selja Orkuveitu Reykjavíkur allt að 95% hlutafjár bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Hlutur Hafnarfjarðar er nú um 15,4%. Reykjanesbær og Geysir Green Energy eru stærstu hluthafar í HS. Reykjanesbær á um 34,7% hlut og GGE 32% hlut. OR á um 16,5% hlut.

Í sumar undirrituðu forsvarsmenn þessara stærstu hluthafa í HS hins vegar viljayfirlýsingu þar sem Reykjanesbær og GGE samþykktu að falla frá forkaupsrétti sínum kæmi til sölu á hlut Hafnarfjarðar til OR. Orðrétt segir í viljayfirlýsingunni: “Í samkomulaginu felst jafnframt að komi til sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar til OR munu Reykjanesbær og GGE ekki nýta sér forkaupsréttarheimild sína að þeim hlut og verður eignarhlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja hf. þar með orðinn 32% enda nýti aðrir forkaupsréttarhafar ekki heimild sína á neina samninga heldur.”

Í fyrrnefndum ummælum Ásgeirs Margeirssonar felst að GGE telji að þessi yfirlýsing eigi ekki við lengur. Sjálfur vildi hann ekki tjá sig meira um þetta mál að svo stöddu.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði hins vegar eftirfarandi þegar Viðskiptablaðið spurði hvort bærinn teldi að hann gæti nýtt sér forkaupsrétt að hlutnum í HS, þrátt fyrir viljayfirlýsinguna: “Við erum að skoða það, en ég tel það sjálfur vera ólíklegt vegna samkomulags okkar frá því fyrr í sumar og vegna svara Gunnars Svavarssonar (bæjarfulltrúa í Hafnarfirði)  til okkar um að Suðurlindir séu á engan hátt að skerða hagsmuni Hitaveitu Suðurnesja.”

Minni hluthafar í Hitaveitu Suðurnesja, það er að segja Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Garður og Vogar hafa tvo mánuði til að ákveða hvort þeir hyggist nýta sér forkaupsrétt sinn, en þeir hafa ekki, eins og stærstu hluthafarnir, gert neina samninga um að falla frá þeim.

Stjórnarfundur hjá OR á þriðjudag

Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar eiga nú í viðræðum um möguleg kaup OR á hlutnum í HS. Eins og fram kom í frétt vb.is fyrir jól verður í þeim viðræðum meðal annars farið yfir hvort verðmat HS hafi breyst í ljósi stofnunar Suðurlinda.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur mun að sögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra OR, ræða þessi mál á fundi sínum sem boðaður hefur verið á þriðjudag. Til stóð að stjórnarfundurinn yrði haldinn í dag, föstudag, en af því varð ekki að sögn Hjörleifs.