Í fjárlögum þessa árs er tekið fram að fjármála- og efnahagsráðherra, hafi heimild til að kaupa hverasvæði Geysis í Haukadal. Ríkið á í dag um 33% hverasvæðisins en níu landeigendur skipta hinum tæpu 67% á milli sín. Þessir níu eigendur stofnuðu fyrir nokkrum árum félag um uppbyggingu svæðins, félag sem nefnist Landeigendafélags Geysis ehf.

Garðar Eiríksson, talsmaður félagsins segir að þessi heimild hafi verið í fjárlögum í mörg ár.

„Við höfum lengi reynt að fá viðtal við meðeigendann (ríkið) en það hefur nú ekki gengið lipurt," segir Garðar. „Við höfum meðal annars gert ríkinu tilboð um að kaupa okkar hlut en það hefur hingað til ekki verið vilji til þess. Við getum samt sagt að það séu ákveðnar þreifingar í gangi á milli lögmanna okkar og ríkisins um einhverja nálgun í þessu máli. Hvað kemur út úr því er ekki gott að segja."

Garðar segir að félagið hafi farið í ýmsa greiningarvinnu og látið kostnaðarmeta svæðið innan girðingar, eins og það er kallað. Það hafi félagið gert áður en tilboð var gert í hlut ríkisins í fyrra. „Við vorum búnir að fjármagna þau kaup, ásamt því sem þurfti til að byggja svæðið upp en það kostar um 800 milljónir."

Hann vill ekki segja hvað sjálft tilboðið hljóðaði upp á en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins buðu landeigendur um milljarð króna í hlut hlut ríkisins, sem þýðir þá að svæðið er metið á um 3 milljarða króna. Þróunin er ör í ferðaþjónustunni, þannig gera má ráð fyrir því verðið hækki eftir því sem ferðamönnum fjölgar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Raforkuframleiðsla gæti aukist um 50%.
  • Nýjar lausnir á sviði netverslunar hjá aha.is.
  • Fæðubótarefni selt í munnpokum.
  • Vilja eigendaskipti á Landsneti.
  • Fjárfestar óttast vinstristjórn.
  • Framleiðni Íslands hefur minnkað umtalsvert.
  • Ferðaþjónusta á landsbyggðinni blómstrar.
  • Svipmynd af Sigrúnu Þorleifsdóttur, starfsmannastjóra Vífilfells.
  • Ítarlegt viðtal við Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um pólitískt burðarþol.
  • Óðinn fjallar um skattaskjól.