Ríkisstjórn Filippseyja hefur hafið söluferli á 40% kjölfestuhlut sínum í orkufyrirtækinu PNOC-EDC (Philippine National Oil Company - Energy Development Corporation), sem er stærsta jarðhitafyrirtæki Filippseyja. Söluferlið hófst formlega í þessari viku, en alls hafa 24 aðilar lýst yfir áhuga á að kaupa hlut ríkisins í félaginu. Í frétt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að þeirra á meðal eru Geysir Green Energy og Reykjavík Energy Invest.

"Við erum að skoða þennan hlut sem nú er til sölu í samstarfi við Reykjavik Energy Invest (REI) auk innlendra aðila á Filippseyjum," sagði Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, í samtali við Viðskiptablaðið í gær. "Við eigum nú þegar 0,8% hlut í PNOC-EDC," bætir hann við.

Út frá markaðsvirði félagsins og yfirlýsingum stjórnvalda í Filippseyjum um hvað þau vilja fyrir hlut sinn er verðmiðinn 50 til 62 milljarðar íslenskra króna. Sérfræðingar Þróunarbanka Filippseyja, sem hefur umsjón með söluferlinu, telja þó ekki ólíklegt að í ljósi þess hve áhugi fjárfesta er mikill gæti lokaverðið orðið mun hærra. Geysir hefur frá því að félagið var stofnað í janúar á þessu ári verið duglegur við að fjárfesta í orkufyrirtækjum víða um heim.

Meðal kaupa Geysis má nefna 20% hlut í Western Geopower fyrir 600 milljónir króna og kaup á Jarðborunum ásamt hlut í Enex , fyrir samtals tæplega 18 milljarða króna. Þá keypti Geysir 32% hlut í Hitaveitu Suðurnesja fyrir 16 milljarða. Alls hefur Geysir því fjárfest fyrir um það bil 40 milljarða frá því að félagið var sett á fót í janúar síðastliðnum. Hinsvegar er alveg ljóst að möguleg kaup Geysis í PNOC-EDC yrðu stærstu kaup Geysis til þessa. Að sögn Ásgeirs yrði fjármögnun kaupanna tryggð með samstarfi við REI og filippseyska aðila. "Við yrðum aldrei ein í þessu ferli," segir Ásgeir.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.