Olíufyrirtækið Geysir Petroleum hf. sem skrásett er í íslenskri firmaskrá var skráð á hlutabréfamarkaði (OTC) í Noregi 23. febrúar. Fjöldi hluta í félaginu er 172,5 milljónir og eru þeir metnir á 553,7 milljónir norskra króna, eða sem svarar um 5,9 milljarða íslenskra króna. Stærsti hluthafinn í fyrirtækinu í dag er Fjárfestingarfélagið Norvest ehf., en það félag er dótturfélag Straumborgar ehf. og er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar sem gjarnan er kenndur við Byko. Áður voru Sagex Petrolium AS og Riekeles Finans AS í Noregi stærstu hluthafarnir í félaginu.


Geysir Petroleum hefur leyfi til olíuleitar í sjó í lögsögu Bretlands, Danmerkur og Færeyja. Hola var boruð á breska svæðinu í svokölluðu Causeway verkefni árið 2006. Á Geysir 10% í því verkefni, en aðrir eigendur eru kanadíska fyrirtækið Antrim Energy Inc. sem jafnframt er verktakinn á svæðinu, breska félagið Dana Petroleum Plc og norska fyrirtækið NOR Energy AS þar sem Norvest er einnig stærsti hluthafinn. Hefur olíufundur verið staðfestur á þessu svæði og er ráðgert að vinnsla hefjist 2009.
Í dönsku lögsögunni er Geysir með leyfi á svokölluðu Central Graben svæði. Þar á Geysir 80% hlut á móti 20% hlut danska ríkisins. Þar eru taldar góðar líkur á að olía finnist. Er áætlað að hefja borun rannsóknarholu á því svæði 2008. Ef allt gengur upp ætti vinnsla að geta hafist þar 2013.
Auk réttar til olíuleitar í Norðursjó hefur Geysir Petroleum sýnt áhuga á olíuleit við Ísland og var upphaflega stofnað í þeim tilgangi.