Olíuleitarfyrirtækið GeysirPetroleum hf., sem skráð er í firmaskrá á Íslandi, tilkynnti í gær um olíufund við boranir í Norðursjó innan lögsögu Bretlands.

Gunnlaugur Jónsson, fjárhagslegur ráðagjafi Norvest, sem er stærsti einstaki eigandinn í GeysirPetroleum, segir fundinn afar mikilvægan og góða viðbót við þann olíufund sem staðfestur var á sama svæði í fyrra. Það er samstarfsaðilinn og borfyrirtækið Antrim Energy Inc. sem annast boranir á svæðinu. Olían fannst þegar borað hafði verið niður á 3.340 metra í svokallað Mið-Jurassic Brent sandsteinslag.

"Þetta eru mjög góðar fréttir og framhald á olíufundinum frá því í fyrra. Við vorum að bora á nýjum stað á sama svæði og höfum fundið þar olíu. Mælingar eru í gangi og niðurstöðu að vænta um magn og flæði innan tveggja vikna.

Þetta þýðir að félagið er enn verðmætara en áður og meiri staðfest olía sem búið er að finna. Áhættan í fjárfestingunni er því minni þar sem sjóðstreymisþátturinn er orðinn stærri."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.