Geysir Green Energy (GGE) hefur ekki lokið greiðslu á hlutafjáraukningu í Enex. Hlutafjáraukningin á að greiðast í þremur hlutum og síðasti hluti greiðslu Reykjavík Energy Invest, um 200 milljónir samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, hefur verið greiddur.

Síðasti hluti greiðslu GGE, um 500 milljónir, hefur hins vegar ekki verið greiddur. Upphæðirnar fengust ekki staðfestar.

Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra GGE og stjórnarformanns Enex, verður greiðsla frá GGE innt af hendi á næstu dögum.

„Stjórn Enex samþykkti einróma að fresta innköllun hlutafjáraukningarinnar vegna þeirrar óvissu sem ríkti um eignarhald og rekstur Enex. Nú eru GGE og REI hins vegar farin að ræða þau mál af alvöru og það hefur verið ákveðið að klára hlutafjáraukninguna. En það er ekki um það að ræða að GGE eigi í vandræðum með að inna lokagreiðsluna af hendi," segir Ásgeir.

REI á 26,5% hlut í Enex og GGE á 73,1% hlut.