Fyrrum forstjóri Nissan, Carlos Ghosn, telur að framtíð japanska bílaframleiðandans sé í hættu en hann viðraði þessar áhyggjur sínar í viðtali við BBC . Forstjórinn fyrrverandi hefur verið mikið í fréttum undanfarið, í kjölfar flótta hans frá Japan til Líbanon .

Rekstur Nissan hefur verið þungur undanfarið og segir Ghosn að rekstrarniðurstaða síðasta árs og fallandi hlutabréfaverð valdi sér áhyggjum. Þá segir hann að ef svo fari að Brexit skaði samkeppnishæfi fyrirtækisins innan Evrópu, þá gæti Nissan þurft að loka verksmiðju sinni í Sunderland.

„Ég er ekki mjög bjartsýnn fyrir framtíð fyrirtækisins, í ljósi rekstrarniðurstöðu, stjórnarhátta og margs annars sem gengur á innan fyrirtækisins," hefur BBC eftir Ghosn.

Í nóvember síðastliðnum greindi Nissan frá því að hagnaður á fyrri helming ársins 2019 hafi dregist saman um 70%.