Sigurgeir Örn Jónsson var mitt í hringiðu viðskipta með skuldabréfavafninga á árum sínum hjá Bank of America. Hann hefur nú hafið störf hjá fjárstýringu Glitnis, og sér ýmsa fjármögnunarmöguleika fyrir íslensku bankana sem ekki hafa verið nýttir áður.

Sigurgeir tók þátt í þróun afleiðuviðskipta á Íslandi áður en hann gekk til liðs við Bank of America (BofA).

„Afleiðuviðskipti á Íslandi snerust fyrst og fremst um gjaldeyri, hlutabréf og skuldabréf. Ég réð mig á verðbréfunarsvið hjá BofA sem höndlaði með afleiður á skuldabréfavafninga (e. synthetic- CDO), en vinsældir þeirra voru mjög að aukast á þeim tíma. Þar sneiddum við niður söfn skuldatryggingarsamninga, og versluðum með einstaka einingar.

Sem dæmi má nefna Traxx-vísitöluna en hún er skuldatrygginagálag 125 fyrirtækja. Fyrsta sneið vísitölunnar (0-3%) tekur þannig til fyrstu fyrirtækjanna sem gætu farið í þrot . Sá pappír hefur mikla ávöxtun, enda þarf ekki mikið út af að bregða til að sá sem kaupir þá áhættu gjaldi fyrir hana – aðeins 3% fyrirtækjanna þurfa að verða gjaldþrota. Næstu sneiðar fyrir ofan hafa stig-lækkandi áhættu því töluverður hluti fyrirtækja getur farið í þrot án þess að fjárfestar tapi peningum.“

Sigurgeir segir þessum viðskiptum hafa fylgt umtalsverð áhætta, en að sama skapi ákaflega mikil ávöxtun. „Vænt ávöxtun minnkar eftir því sem áhætta viðkomandi bréfs byggist á gjaldþroti fleiri fyrirtækja. Stærsta sneiðin af vísitölunni tók síðan til 30-100% gjaldþrota. Sá pappír gaf litla ávöxtun, þar sem stjarnfræðilega litlar líkur væri á að svo stórt hlutfall fyrirtækjanna í vísitölunni tapi raunverulega fjármunum.

En það sem lausafjárkreppan hefur kennt mönnum er að þessi áhætta er ekki endilega spurning um raunveruleg gjaldþrot heldur einfaldlega framboð og eftirspurn, getu til að halda lausu fé. Því má segja að mesta tapið hafi komið fram í þeim eignum sem þóttu áhættuminnstar á sínum tíma.“

______________________________________

Nánar er rætt við Sigurgeir í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .