Hæstiréttur Ísalnds dæmdi í dag Gift fjárfestingarfélag, áður Eignahaldsfélag Samvinnutrygginga, til þess að greiða þrotabúi Landsbankans 912 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna framvirks samnings um hlutabréf í hinum fallna banka. Samningurinn var gerður 19. ágúst 2008. Í staðinn fær Gift afsal upp á tæplega 31 milljón hluta í bankanum fallna. Hlutirnir eru verðlausir enda bankinn í þrotameðferð. Þar með sneri Hæstiréttur við dómi Héraðsdóms frá því í fyrrasumar en Landsbankinn hafði áfrýjað þeim dómi.

Málsatvik voru þau að Gift gerði á áðurnefndri dagssetningu framvirkan samning um kaup á 30.826.230 hlutum í Landsbankanum en á gjalddaga neitaði félagið að greiða fyrir bréfin sem þá voru orðin verðlaus. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skylda Giftar hafi samkvæmt samningnum verið skýr og að félagið hafi vitað af áhættunni á því að bréfin gætu orðið verðlaus eða misst gildi sitt sem hlutabréf. Upplýsingar úr hluthafaskrá um tilgang Giftar hafi bent til þess að jafnræði hafi verið með samningsaðilum og að félagið hafi notið ráðgjafar um framvirka samninga annars staðar en úr Landsbankanum. Þá þóttu efni samningsins eða atvik eftir gerð hans ekki gefa tilefni til þess að víkja samningnum til hliðar.

Loks þótti ekki sannað að Landsbankinn hafi beitt blekkingum en lögmenn GIftar höfðu vísað til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis máli sínu til stuðnings.