Grillmatur
Grillmatur
© Getty Images (Getty)
Verð á lambakjöti mun hækka mikið í haust. Landssamtök sauðfjárbænda hafa ákveðið að hækka verðskrá sína um 25% fyrir árið í ár. Sindri Sigurgeirsson, formaður félagsins, segir sauðfjárbændur selja 40% af framleiðslu fari á erledan markað. Markaðsaðstæður séu því góðar og drifkrafturinn í ákvörðuninni.

Talsmaður Landsamtaka sauðfjárbænda segir það ekki sjálfgefið að verð til neytenda hækki jafnmikið, eða um 25%, þar sem verðskrá sauðfjárbænda sé ekki bindandi fyrir afurðastöðvarnar. Reynslan er hinsvegar sú að afurðastöðvar hafa oftast varpað slíkum hækkunum í verðlag til neytenda.

Í tilkynningu segir: „Útflutningur hefur aukist stórum og verð farið hækkandi í erlendri mynt, vegna aukinnar eftirspurnar. Meðalverð fyrir útflutt kjöt, innmat og gærur hefur hækkað langt umfram áhrif gengisfalls krónunnar ef miðað er við þróun frá haustinu 2008. Eftirspurn innanlands hefur verið á svipuðu róli undanfarin tvö ár og birgðir eru í lágmarki."

Í tilkynningu kemur jafnframt fram að áburður hafi þrefaldast í verði frá árinu 2005 og olía hækkað um 233%. Þá hafi breytilegur kostnaður á sauðfjárbúum tvöfaldast frá árinu 2005 og heildarrekstarkostnaður hæpkkað um 174%. Vegna góðra markaðaðstæðna telja sauðfjárbændur að nú sé svigrúm til þess að hækka afurðaverð til að koma til móts við þær hækkanir sem hér eru nefndar.