Minni fjármálastofnanir telja stöðu sína ójafna gagnvart viðskiptabönkunum að því leyti að þær eiga ekki kost á að fá lánveitingar út á t.d. íbúðalánapakka sína. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu þó fagnaðarefni.

Alltof ójöfn staða er á markaði á milli viðskiptabanka og minni fjármálastofnana varðandi möguleika á að fá lán út á t.d. undirliggjandi fasteignaveðbréf, að mati Geirmundar Kristinssonar, sparisjóðsstjóra í Keflavík og stjórnarformanns Icebank. Kveðst hann telja þörf á að lög og reglur verði rýmkaðar þannig að innlendur aðili, þá helst Seðlabanki, geti annast þessa þjónustu fyrir smærri aðila á markaði.

„Viðskiptabankarnir, sem hafa fjárhagslegt bolmagn til að fara í mat hjá stórum matsfyrirtækjum á borð við Moody’s og önnur slík, eiga möguleika á að veðsetja allt sitt erlendis, t.d. íbúðalánapakkana, til að sækja fjármagn, en þetta geta minni aðilar ekki sem eiga ekki kost á slíku mati,“ segir Geirmundur.

„Þetta er gífurlega ójöfn staða á markaði og alveg ótrúlegt að þar sem á að vera virkt samkeppniseftirlit og annað, skuli þetta vera látið viðgangast án þess að nokkur taki í taumana. Minni fjármálafyrirtæki eru að berjast við að halda sjó en staða okkar er mun verri að því leyti að við njótum ekki sömu aðstöðu og viðskiptabankarnir. Maður hefði haldið að innlendir aðilar myndu jafna þessa stöðu með því að t.d. Seðlabankinn kæmi að minni fjármálafyrirtækjum hérna heima að þessu leyti og jafnaði samkeppnina, en Seðlabankinn virðist ekki hlusta á okkur.“

Þurfa að sanna og sannfæra

Geirmundur kveðst hins vegar fagna því að Íbúðalánasjóður komi til móts við minni aðila á markaði með lánamöguleikum að tilhlutan ríkisstjórnar, en það er hins vegar ekki til langframa.

Seinni hlutann í júlí auglýsti Íbúðalánasjóður eftir umsóknum fjármálafyrirtækja um lán til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum. Alls eru 30 milljarðar í pottinum og hver umsækjandi á rétt á 1,5 milljörðum króna að lágmarki.

„Við höfum átt mjög gott samstarf við sjóðinn og fagnaðarefni að hann skuli vera þátttakandi með þessum hætti,“ segir Geirmundur. Umsóknarfrestur um milljarðana 30 er útrunninn og búið að svara umsækjendum en sjóðurinn býður eftir staðfestingu á áreiðanleika umsækjenda.

„Þeir þurfa að taka til skuldabréfin sem þeir ætla að setja sem tryggingu fyrir láninu, og sanna og sannfæra okkur um að stofnunin sem sækir um standist eiginfjárkröfur o.fl. Á meðan þetta er ófrágengið bíða lánveitingarnar,“ segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. Hann kveðst gera ráð fyrir að fyrir liggi í byrjun september hverjir fái úthlutað.