Tvö af stærstu viðskiptasamtökum sem eiga viðskipti milli Bandaríkjanna og Evrópu hafa varað við því að ef samningar nást ekki um öruggan flutning persónuupplýsinga milli heimsálfanna þá muni það hafa gífurlegar afleiðingar fyrir fjölda fyrirtækja. Frestur til að ná samningum rennur út nú í lok janúar. Meðal aðila í samtökunum eru Viðskiptaráð Bandaríkjanna, Business Europe, Digital Europe og Information Technology Industry Council.

Forsaga málsins er sú að nýlega ógilti evrópudómstóllinn ákvörðun Framkvæmdastjórnar ESB um að tiltekin fyrirtæki innan Bandaríkjanna væru öruggar hafnir fyrir persónuupplýsingar. Samningurinn um öruggar hafnir var undirritaður af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna árið 2000. Samningurinn heimilaði flutning á persónuupplýsingum til fyrirtækja í Bandaríkjunum sem veita upplýsingunum fullnægjandi vernd. Skrifað var undir samninginn eftir að það kom í ljós að löggjöf Bandaríkjanna veitti persónuupplýsingum ekki fullnægjandi vernd samkvæmt persónuverndartilskipun Evr­ópusambandsins.

Ógilt vegna almennra heimilda njósnastofnanna

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um öruggar hafnir væri ógild, m.a. á þeirri forsendu að bandarískar eftirlitsstofnanir hefðu almennan aðgang að persónuupplýsingum sem vægi að friðhelgi einkalífs borgaranna. Evrópudómstóllinn benti á að fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa verið þvinguð til að hunsa reglurnar í þeim tilvikum þar sem reglurnar stangast á við öryggi ríkisins, almanna- eða löggæsluhagsmuni (e. national security, public interest, or law enforcement requirements). Dómstóllinn tók sérstaklega tillit til þeirra upplýsinga sem uppljóstrarinn Edward Snowden afhenti blaðamönnum árið 2013, en þau gögn uppljóstruðu um umfangsmiklar njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar sagði við það tækifæri í samtali við Viðskiptablaði:

„Það er alveg ljóst að það eru gríðarlegir hagsmunir undir. Það myndi hafa geigvænleg áhrif fyrir mjög mörg fyrirtæki ef það hefði verið lagt algert bann við þessum gagnaflutningi. Það er því allt kapp lagt á að leysa þessa stöðu.“

Evrópusambandið og Bandaríkin hófu strax samningaviðræður, en eins og áður sagði mun frestur til að ná samningum renna út núna í lok janúar, en viðskiptasamtökin vara við afleiðingunum ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Samtökin sendu bréfið til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, Jean-Claude Juncker forseta Evrópuþingsins, æðstu menn 28 aðildaríkja Evrópusambandsins auk fjögurra viðskiptasamtaka.

Í bréfinu segir að yfir 4.000 fyrirtæki, af öllum stærðum og gerðum treysti á að samningar muni nást. Þau fyrirtæki bíði nú milli vonar og ótta eftir því hvort samningar náist. Ef þeir náist ekki muni starfsemi þeirra á milli Bandaríkjanna og Evrópu stöðvast að miklu leyti, en það gæti haft griðarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækin.

Viðræðum á háum stigum

Helga sagði um stöðuna í málinu í dag í samtali við Viðskiptablaðið:

„Það eru viðræður á háum stigum. Mér barst þetta bréf frá Bandaríkjunum í desember sem sagði að þetta væri óvinnandi frestur til að vinna eftir það er ekki unnt að verða við þessu fyrir lok janúar og aðilar hvattir til að tala saman. Það er í raun bara staðan.“

Fundur verður haldinn þann 2. febrúar nk. á vegum persónuverndarstofnanna í Evrópu þar sem ákveðið verður hvort að gripið verðu til aðgerða gegn fyrirtækjum sem flytja persónuupplýsingar án heimildar ef samningar nást ekki.