Gildi-lífeyrissjóður hefur bætt við sig tíu milljón hlutum í Arion banka en hlutirnir voru keyptir á genginu 75,3. Eftir viðskiptin fer sjóðurinn og einstakar deildir hans með 5,39% hlut í bankanum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptin þýða að Gildi verður þriðji stærsti hluthafi í Arion banka en fyrir þau var sjóðurinn sá fimmti stærsti. Stoðir eru í fjórða sæti með 4,96% og Lansdowne Partners með 5,01%. Tveir stærstu hluthafarnir eru Taconic Capital, með 23,53%, og Och-Ziff Capital Management með 9,25%.

Hluthafafundur fer fram í bankanum á föstudag en þar verða kosnir tveir nýir einstaklingar í stjórn bankans. Þrír eru í framboði en tilnefningarnefnd leggur til að Gunnar Sturluson, lögmaður og einn eigenda Logos, og Paul Richard Horner, starfsmaður Ulster Bank Ireland, verði kjörnir. Már Wolfgang Mixa, hagfræðingur, er sá þriðji sem gefur kost á sér.