Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, útilokar ekki að sjóðurinn muni fara fram á gjaldþrot slitabús Glitnis í ljósi frétta af uppgreiðslu kröfu Heiðars Más Guðjónssonar á hendur slitabúinu í gær. Málið hefur ekki verið tekið til umræðu innan sjóðsins, en Árna þykir líklegt að það verði skoðað.

Greint var frá því á Vísi.is í gær að gjaldþrotabeiðni Heiðars Más Guðjónssonar á hendur Glitni, sem fara átti fyrir héraðsdóm í dag, yrði ekki tekin fyrir þar sem búið væri að greiða upp kröfu hans á hendur slitabúinu að fullu . Heiðar Már sagði í samtali við Vísi að greiðslan fyrir kröfuna kæmi beint úr vasa erlendra kröfuhafa sem væru að reyna að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti föllnu bankanna.

Aðspurður hvort Gildi íhugi að fara fram á gjaldþrot Glitnis til þess að freista þess að fá fullar endurheimtur á kröfu sinni segir Árni:

„Óneitanlega hugsar maður til þess þegar maður heyrir fréttirnar en við höfum svo sem ekki tekið sérstaka umræðu um það ennþá hjá okkur. Mér finnst allavega eðlilegt að við skoðum allar hliðar málsins eftir þessa niðurstöðu sem maður sá ekki fyrir sér áður, svo við munum eflaust líta á það hvort þetta sé eitthvað sem er þess virði að skoða,“ segir í samtali við Viðskiptablaðið.

Árni segist ekki muna nákvæma fjárhæð kröfu Gildis á hendur slitabúinu. „Ég man ekki nákvæmlega fjárhæð kröfunnar, en það er dágóð krafa,“ segir hann.