Lífeyrissjóðurinn Gildi fjárfesti í erlendum vogunarsjóðum fyrir efnahagshrunið árið 2008. Með fjárfestingunni var farið í kringum lög um lífeyrissjóði sem bannar þeim að fjármagna sig með lántökum nema í undantekningatilfellum. Í skýrslu úttektarnefndar sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna fyrir hrun er vakin sérstök athygli á þessari fjárfestingu Gildis.

Í fjárfestingarstefnu Gildis var honum heimilt að fjárfesta í vogunarsjóðum.

Í skýrslunni er haft eftir Tryggva Tryggvasyni, sjóðsstjóra eignarstýringardeildar Gildis, að lífeyrissjóðnum væri heimilt að fjárfesta í vogunarsjóðum. Hann hélt því fram að ekkert bannaði það í lagaákvæðum um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða auk þess sem Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við viðskipti. Hann benti á að Gildi lífeyrissjóður hafi fjárfest í erlendum vogunarsjóðum og sjóðum sem áttu í slíkum sjóðum og haft af því góðar tekjur en einnig tapað nokkrum fjármunum.

Þá kemur fram í skýrslunni að Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, haldi því jafnframt fram að heimild til fjárfestinga í vogunarsjóðum falli undir 8. tl. 1. mgr. 36. gr. lífeyrissjóðslaga.

Máttu ekki taka lán

Úttektarnefndin er hins vegar á öðru máli. Skoðun sína byggir hún á því að í 3. mgr. 38. gr. lífeyrissjóðslaga er bann lagt við því að lífeyrissjóðir taki lán nema í undantekningartilfellum. Vogunarsjóðir fjármagni sig með lántökum og skortssölum.

Þá segir í skýrslunni:

„Í 9. mgr. 36. gr. lífeyrissjóðslaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 70/2004 sem breyttu þeim lögum, er lagt bann við því að lífeyrissjóðir fjárfesti eða eigi í fjárfestingarsjóðum skv. 7. tl. 1. mgr. greinarinnar sem fjármagna sig með þeim hætti. Ákvæðið var nauðsynlegt vegna þess að með breytingarlögunum var verið að heimila lífeyrissjóð- unum að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum, en í lögum um þá var þeim heimiluð lántaka og skortssala. Sést þetta af greinargerð með þessum lögum en þar er sá skilningur ítrekaður að almenn heimild til lántöku lífeyrissjóða sé ekki fyrir hendi. Ljóst er að með fjárfestingum í vogunarsjóðum væri verið að fara í kringum slíkt bann. Heimild er ekki í 8. tl. 1. mgr. 36. gr. laganna til að víkja frá banninu. Þá verður það ekki talið samræmast lagaákvæðum um almenna varfærni lífeyrissjóða við fjárfestingar að kaupa verðbréf í vogunarsjóðum.“