Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs hefur samþykkt nýja hluthafastefnu sjóðsins. Hluthafastefnan markar stefnu og stjórnarhætti Gildis-lífeyrissjóðs sem eiganda í þeim félögum sem hann fjárfestir í. Í tilkynningu segir að stjórn sjóðsins vilji stuðla að auknu gegnsæi og ábyrgð sem eigandi og fjárfestir á markaði. Markmið Gildis-lífeyrissjóðs sé m.a. að beita sér sem eigandi í félögum þar sem sjóðurinn er hluthafi, í þeim tilgangi að stuðla að langtímahagsmunum og sjálfbærni þeirra og ábyrgum stjórnarháttum.

Við endurskoðun hluthafastefnunnar horfði stjórn sjóðsins meðal annars til þróunar og umræðu í Evrópu og OECD tengdri endurskoðun á reglum um stjórnarhætti og innleiðingu þeirra ásamt umræðu hagsmunaaðila hérlendis. Í tilkynningunni segir að stjórn sjóðsins vilji í takt við þá þróun leggja sitt af mörkum til þess að bæta stjórnarhætti og stuðla þannig að framþróun á innlendum hlutabréfamarkaði.

Í nýrri hluthafastefnu eru m.a. sett fram viðmið um upplýsingagjöf hvað varðar starfskjör og starfskjarastefnur. Jafnframt vill lífeyrissjóðurinn stuðla að auknum og gagnkvæmum samskiptum við stjórnir félaga.

Helstu áherslur í nýrri hluthafastefnu eru:

  • Stjórnarhættir Gildis-lífeyrissjóðs sem hluthafa eru útfærðir með skipulegum hætti ásamt eftirfylgni hans og áherslum.
  • Lögð er áhersla á gagnkvæm samskipti við stjórnir og kveðið á um form, fyrirkomulag og efni samskipta með skipulegum hætti.
  • Áhersla er lögð á aukna virkni hluthafafunda sem vettvang fyrir hagsmunaaðila til að skiptast á skoðunum ásamt tillögugerð og ákvarðanatöku.
  • Sett eru fram tiltekin viðmið sem sjóðurinn telur rétt að hafa til hliðsjónar við mótun starfskjarastefna félaga, greiningu á áhrifum þeirra og viðmið um upplýsingar sem sjóðurinn telur æskilegt að séu tilgreindar í skýrslum um framkvæmd starfskjarastefna.