Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs hefur ákveðið að leggja til við ársfund sjóðsins að áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga verði hækkuð um 10% og nemur hækkunin 18 milljörðum króna að því er kemur fram í tilkynningu. Þetta er annað árið í röð sem Gildi hækkar réttindin, en árið 2006 hækkaði sjóðurinn áunnin réttindi um 7%.

Í tilkynningunni kemur fram að þetat er gert í ljósi góðrar afkomu sjóðsins á undanförnum árum en meðalraunávöxtun á ári síðastliðnum fimm árum er 11%. Nafnávöxtun Gildis árið 2006 var 17% eða 9,6% raunávöxtun.

Þessa góðu ávöxtun á nýliðnu ári má rekja til fjárfestingarstefnu sjóðsins og hagstæðra skilyrða á verðbréfamörkuðum, bæði innanlands og utan. Innlend hlutabréf sjóðsins hækkuðu um 17,6% á meðan Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 15,8%, erlend hlutabréf hækkuðu um 33,5% í krónum, en heimsvísitalan hækkaði um 32,8%.

Fjárfestingartekjur námu samtals 31,3 milljörðum króna og hrein eign til greiðslu lífeyris var 215,4 milljarðar kr. í árslok 2006 og hækkaði um 34 milljarða frá fyrra ári eða 18,8%. Eignaskiptingin var með eftirfarandi hætti í árslok 2006: 49% af eignum sjóðsins voru í innlendum skuldabréfum, 24% í innlendum hlutabréfum og 27% í erlendum verðbréfum.

Á árinu greiddu 4.033 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 7.975 milljónir króna, fyrir 41.487 sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok 2006 voru samtals 159.129. Lífeyrisgreiðslur námu 4.889 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 15.071.

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðsins í árslok 2006 eru eignir 10,3% umfram heildarskuldbindingar. Í ljósi þessarar góðu stöðu hefur stjórn sjóðsins ákveðið að leggja til við ársfund sem haldinn verður 25. apríl, að áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega verði hækkuð um 10% frá 1. janúar 2007. Þrátt fyrir þessa hækkun réttinda mun staða sjóðsins verða jákvæð um 4,6% eða um 14,5 milljarða segir í tilkynningunni.