Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins ætla ekki að taka þátt í hlutafjárútboði Eimskips. Óánægja er með þá kaupréttasamninga sem gerðir voru við sex lykilstarfsmenn.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu í dag að lífeyrissjóðir hafi í gær ekki tekið ákvörðun um hvort né í hvaða mæli þeir taki þátt í útboðinu. Þeir hafa sérstaklega sett fyrir sig kaupréttasamninga og þá þykir mörgum verðmiðinn hár. Samkvæmt fréttum RÚV í gærkvöld og hádegisfréttum Bylgjunnar hafa nú að minnsta kosti tveir stórir sjóðir, Gildi og LSR, tekið ákvörðun um að bjóða ekki í bréfin.

Stór hluti þeirra fagfjárfesta sem fengu að taka þátt í lokuðu áskriftarferli á 20% hlut í félaginu eru lífeyrissjóðir. Því þykir ljóst að þeir gegna lykilhlutverki í útboðinu sem lýkur klukkan 14 í dag.