Úttekt á lífeyrissjóðum lokið - Blaðamannafundur á Grand Hótel
Úttekt á lífeyrissjóðum lokið - Blaðamannafundur á Grand Hótel
© BIG (VB MYND/BIG)
Úttektarnefndin kynnir skýrslu sína um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í aðdraganda hruns

„Engin spurning er í okkar huga að þessar fjárfestingar eru löglegar. Þar með teljum við að hugleiðingar nefndarinnar um ólögmæti þessara fjárfestinga séu rangar,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildi lífeyrissjóðs.

Í frétt netútgáfu Viðskiptablaðsins sagði í dag að Gildi lífeyrissjóði hafi á árunum fyrir hrun fjárfest í erlendum vogunarsjóðum, sem fjármagni sig með lántökum og skortsölum. Í skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða sem rannsakaði fjárfestingar og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna segir að með þeim viðskiptum hafi verið farið í kringum bann við lántökum lífeyrissjóða.

Í 2. bindi lífeyrissjóðaskýrslunnar þar sem fjallað er um Gildi lífeyrissjóð segir: „Heimild er ekki í 8. tl. 1. mgr. 36. gr. laganna til að víkja frá banninu. Þá verður það ekki talið samræmast lagaákvæðum um almenna varfærni lífeyrissjóða við fjárfestingar að kaupa verðbréf í vogunarsjóðum.“

Ályktun úttektarnefndarinnar er röng

Gildi lífeyrissjóður vill koma eftirfarandi á framfæri vegna þessa:

Gildi-lífeyrissjóður mótmælir fullyrðingum um að sjóðurinn hafi farið í kringum lög um lífeyrissjóði með fjárfestingu í vogunarsjóðum. Meðfylgjandi er lögfræðilegt álit sem sjóðurinn hefur endurtekið fengið á slíkum fjárfestingum. Niðurstaðan er sú að sjóðurinn er ekki í vafa um að þessar fjárfestingar eru að fullu innan þeirra marka sem Alþingi hefur sett lífeyrissjóðum í lögum nr. 129/1997.

Fram kemur í álitinu að enginn vafi leiki á því að vilji löggjafans hafi verið sá að gefa lífeyrissjóðunum færi á því að fjárfesta í óskráðum sjóðum sem ekki lytu opinberu eftirliti og gætu fjármagnað sig með lánum og stundað skortsölu. Viðhorfið hafi eðlilega verið það að þessi flokkur eigna skyldi ekki vera umfangsmikill í egnasafni lífeyrissjóða.

Þá segir að ekki sé að sjá af texta skýrslu Úttektarnefndarinnar að hún hafi gefið gaum að þeim breytingum sem Alþingi gerði á upphaflegu frumvarpi sem nefndin vísar til sem heimild um vilja löggjans um bann við fjárfestingum í vogunarsjóðum eða leitast við að greina muninn á heimildum svk 7. og 8.tl. laga nr. 7/2004.

Niðurstaðan sé því ákveðið sú að ályktun nefndarinnar um það að fjárfestingar Gildis lífeyrissjóðs í vogunsjóðum sé án lagaheimildar sé röng.