*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 30. ágúst 2021 16:04

Gildi selur í Eimskip

Eimskip lækkaði um 1,8%, mest allra Kauphallarfélaga í dag. Gildi, næst stærsti hluthafi Eimskips seldi fyrir um 130 milljónir í félaginu.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í þriggja milljarða króna veltu í dag. Hlutabréfagengi níu félaga aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og sex þeirra lækkuðu. Icelandair hækkaði um 2,1%, mest allra félaga, í 202 milljóna veltu. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,47 krónum á hlut.    

Á hinum enda rófsins er Eimskip sem lækkaði um 1,8%. Hlutabréfagengi flutningafyrirtækisins stendur nú í 433 krónum á hlut og hefur lækkað um 4% frá því á þriðjudaginn síðasta, þegar það náði sínu hæsta stigi frá skráningu í 451 krónu á hlut.

Í morgun barst flöggunartilkynning um að lífeyrissjóðurinn Gildi, næst stærsti hluthafi Eimskips hafi selt 300 þúsund hluti í flutningafyrirtækinu á fimmtudaginn og að eignarhlutur sjóðsins væri þar með kominn undir 15%. Miðað við dagslokagengi Eimskips á fimmtudaginn má gera ráð fyrir að Gildi hafi selt hlut í félaginu fyrir 133 milljónir króna.

Hlutabréfaverð þriggja félaga náði methæðum í dag. Marel hækkaði um nærri eitt prósent í dag og stóð í 969 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi Síldarvinnslunnar hefur hækkað um 4,5% frá því að útgerðarfélagið skilaði uppgjöri fyrir annan ársfjórðung á fimmtudaginn og er nú 19% yfir útboðsgenginu í maí síðastliðnum. Hagar hækkuðu um 0,6% í dag og er hlutabréfaverð smásölufyrirtækisins nú komið í 65 krónur á hlut.