*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 18. september 2020 10:10

Gildi tók þátt í útboði Icelandair

Gildi tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Formaður Eflingar hafði lagst gegn þátttöku sjóðsins í útboðinu.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Gildi lífeyrissjóður tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair, sem lauk í gær. Þetta staðfestir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis. Hann vildi ekki segja til um hve lífeyrissjóðurinn hefði skráð sig fyrir hárri upphæð að svo stöddu. Gildi var þriðji stærsti hluthafi Icelandair með 7,24% hlut fyrir útboðið.

Óvissa hafði verið um þátttöku sjóðsins í útboðinu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Jóna Sveinsdóttir, sem eru aðal- og varamenn í stjórn fulltrúaráðs Gildis, skrifuðu grein í Morgunblaðið um helgina þar sem þær lögðust gegn þátttöku Gildis í hlutafjárútboðinu. Stefán Ólafsson prófessor,er  stjórnarformaður Gildis og efnahagsráðgjafi Eflingar.

Sjá einnig: Þvertaka fyrir þátttöku í útboðinu

Þá var Sólveig Anna sú eina í miðstjórn ASÍ sem lagðist gegn því að sáttayfirlýsing yrði send út með SA og Icelandair vegna kjaradeilna við Flugfreyjufélag Íslands í sumar. Sameiginleg tilkynning var send út í gær, á meðan hlutafjárútboðið stóð yfir, þar sem uppsögn flugfreyja í sumar var hörmuð.