*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 7. febrúar 2018 14:00

Gildi vilji ekki kaupa í Arion

Lífeyrissjóðirnir eru ýmist sagðir ætla að kaupa 10% í Arion banka eða að þeir bíði átekta og sumir jafnvel hafnað kaupum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eignarhaldsfélagið Kaupskil, í eigu þrotabús Kaupþings, hefur gengið til viðræðna við á annan tug lífeyrissjóða um kaup á samanlagt 10% hlut í Arion banka að því er Fréttablaðið greinir frá. Hins vegar virðist sem stærstu sjóðir landsins vilji flýta sér hægt og fullyrðir Morgunblaðið að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi hafnað tilboði um kaup í bankanum sem honum barst 24. janúar síðastliðinn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur stjórn Arion banka ákveðið að leggja til að bankinn greiði allt að 25 milljarða króna arð, takist bankanum að selja að minnsta kosti 2% hlut í Arion banka fyrir miðjan apríl.

Jafnframt er lagt til að bankinn geti keypt allt að 10% af eigin bréfum í bankanum fyrir allt að 18,8 milljarða króna. Sú upphæð yrði þó dregin af væntanlegri arðgreiðslu.

Ef af arðgreiðslunni yrði, gætu lífeyrissjóðir sem til dæmis keyptu 5% hlut á kringum 0,8 af eigin fé, það er fyrir um 8,9 milljarða króna, fengið um 14% af því strax til baka. Það er um 1,25 milljarðar króna að því er Morgunblaðið bendir á.

Jafnframt er því haldið fram að lífeyrissjóðirnir vilji sumir sjá hvort af skráningu bankans á markað verður, jafnvel þó það þýði að þeir þurfi að greiða þá hærra verð.

Fleiri fréttir um málið: