Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur lagt til breytingu á tillögu stjórnar Haga um kaupréttarkerfi fyrir aðalfund félagsins sem fer fram 3. júní næstkomandi. Breytingartillagan felst í að heimilt sé að úthluta 1% hlutafé Haga í kaupréttarkerfi, í stað 2% samkvæmt tillögu stjórnar. Markaðsvirði 1% af hlutafé Haga nemur um 713 milljónum króna í dag.

Gildi leggur til að skilmálar verði að öðru leyti óbreyttir miðað við tillögu stjórnar. Samkvæmt þeim getur forstjórinn, Finnur Oddsson, að hámarki átt rétt á kaupréttarsamningum sem nemur 20% af úthlutuðum hlutum, aðrir stjórnendur og lykilstarfsmenn að hámarki 15% af úthlutuðum hlutum á hverjum tíma.

Fjárhæð kaupauka á ársgrundvelli geta að hámarki svarað til fjögurra mánaða grunnlauna fyrir forstjóra og þriggja mánaða grunnlauna framkvæmdastjóra.

Kaupaukaáætlun forstjóra er nánar sem hér segir:

  • 1 mánuður skal greiddur ef 100% af EBITDA samþykktri rekstraráætlun ársins er náð.
  • 1 mánuður til viðbótar skal greiddur ef 110% af EBITDA samþykktri rekstraráætlun ársins er náð.
  • 1-2 mánuðir skulu greiddir, óháð því hvort aðrar kaupaukagreiðslur hafa verið greiddar, ef samþykktum uppsettum innri skammtíma og langtíma markmiðum er náð.

Greinargerð breytingartillögunnar er eftirhljóðandi:

Stjórn Haga hf. leggur til að komið verði á fót kaupréttarkerfi innan félagsins sem ætlað er að tvinna saman hagsmuni lykilstarfsmanna Haga hf. og hluthafa félagsins, með kerfi sem leiðréttir fyrir ávöxtunarkröfu og úthlutun af eignum félagsins. Kaupréttarhafi hagnist ekki á kaupréttarkerfinu nema með aðgerðum sem hafi jákvæð áhrif á hlutabréfaverð til lengri tíma litið og er kerfið þannig upp byggt að mati stjórnar að ekki er litið til skammtímaáhrifa á gengi hlutabréfa í félaginu. Þá er gert ráð fyrir að forstjóra og meðlimum framkvæmdastjórnar verði gert skylt að halda eftir ákveðnum fjölda hluta þar til ákveðnu margfeldi af grunnlaunum er náð, þegar skattar hafa verið dregnir frá, allt til starfsloka hjá félaginu.

Gildi-lífeyrissjóður leggur áherslu á mikilvægi framangreindra atriða í afstöðu sinni varðandi kaupréttarkerfið, þ.e. að nýtingarverð kerfisins hækki yfir tíma og að stjórnendur haldi eftir ákveðnum eignarhlut í félaginu. Á hinn bóginn telur sjóðurinn rétt að litið sé til heildarsamhengis launa stjórnenda félagsins við mótun á umfangi kerfisins. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um þessi kjör telur sjóðurinn rétt að umfang kaupréttarkerfis verði 1% af hlutafé félagsins í stað 2% samkvæmt tillögu stjórnar félagsins og leggur það til sem breytingartillögu. Tillaga stjórnar verði að öðru leyti óbreytt.

Gildi gerði einnig athugasemd við starfskjarastefnu Arion banka í mars síðastliðnum sem fól í sér árangurstengt launakerfi, aukningu kauprétta og áskriftarréttinda. Gildi greiddi einnig atkvæði gegn tillögu stjórnar Arion um þóknun til stjórnarmanna á þeim grundvelli að fjárhæðir sem þar eru lagðar til séu hærri en það sem gengur og gerist.