Stjórn Gildis lífeyrissjóðs hefur ákveðið að setja tæpa tvo milljarða króna í fjármögnun kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. DV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að lánsfjármögnun upp á einn og hálfan milljarð hafi verið samþykkt en sjóðurinn hafi einnig tryggt sér forgangshlutafé í félaginu Bakkastakkur fyrir 430 milljónir króna.

„Þetta átti sér ákveðinn aðdraganda. Við teljum verksmiðjuna vera mjög áhugaverðan fjárfestingarkost þar sem við eigum eftir að fá hluta endurgreiðslunnar í erlendum gjaldmiðlum og þarna erum við einnig að dreifa fjárfestingu sjóðsins og þannig áhættunni,“ segir Harpa Ólafsdóttir, stjórnarformaður Gildis, í samtali við DV.

Segir hún fjárfestinguna í PCC nema á bilinu 5 - 10% af heildarfjárfestingu sjóðsins á síðasta ári.