*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 8. nóvember 2019 14:00

Gildir eitt fyrir lífeyris- og þjóðarsjóð?

Hagfræðistofnun spyr hvort rökin fyrir fjárfestingarstefnu þjóðarsjóðs eigi líka við um lífeyrissjóði.

Ritstjórn
Hagfræðistofnun er vísindaleg rannsóknarstofnun sem er starfrækt af Háskóla Íslands.
Haraldur Jónasson

Í frumvarpi um Þjóðarsjóð er gert er ráð fyrir að allar eignir sjóðsins verði ávaxtaðar í útlöndum. Það er rökstutt með því að líklegt sé að eignir í íslenskum krónum rýrni þegar áföll dynji yfir og að mikilvægt sé að koma í veg fyrir að sjóðurinn verði notaður í viðskiptapólitískum tilgangi. 

Hagfræðistofnun tekur undir þessar röksemdir í umsögn sinni um frumvarpið og segir áhættu fylgja því að hafa eignir á sama stað og tekna er aflað. Fallist fólk á þessi rök vakni hins vegar spurning um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða.

„Sú spurning vaknar hvort ekki er rétt að íhuga vandlega að taka upp sömu reglu fyrir annan skyldusparnað landsmanna, lífeyrissjóðina, en mörg af þeim rökum sem hér hafa verið nefnd eiga einnig við um þá,“ segir í umsögn Hagfræðistofnunnar. 

Að mati Hagfræðistofnunnar virðist skynsamlegt að ávaxta sjóðinn í útlöndum því ef dreifa á áhættu sé jafnan best að fjárfesta sem víðast. „Hagfræðingar nefna þá tilhneigingu að fjárfesta í nánasta umhverfi heimabjögun eða heimaslagsíðu,“ segir í umsögninni og vísað til Noregs þar sem Olíusjóðinum sé bannað að fjárfesta í norskum eignum.   

„Einn meginmunur á olíulindum Norðmanna og orkulindum Íslendinga er að olíulindirnar ganga til þurrðar á fáum áratugum ef að líkum lætur, en flestir gera ráð fyrir að orkulindir Íslendinga endist í aldir. Grípa á til Olíusjóðsins þegar olíulindirnar tæmast, en íslenski sjóðurinn er hugsaður til þess að glíma við áföll,“ segir í umsögninni sem almennt er jákvæð í garð markmiðs sjóðsins ein og það sé skilgreint í frumvarpinu. 

„Það hlýtur að vera skynsamlegt að leggja til hliðar í góðæri til verri tíma og freista þess þannig að draga úr sveiflum í neyslu. En miklar arðgreiðslur af orkulindum landsmanna eru ekki í hendi. Orkusala til stóriðju er áhætturekstur. Ekki þarf nema að eitt af þrem álverum hér á landi verði fyrir áfalli til þess að stofna þessari sameign Íslendinga í hættu. Þess vegna ber að skoða af alvöru hvort þátttaka landsmanna í áhættusömum atvinnurekstri er ekki óþarfur milliliður að þeim neyðarsjóði sem hér er fyrirhugaður og hvort andvirði fjárfestinga þeirra í orkuframleiðslu er ekki betur komið í dreifðri verðbréfaeign í útlöndum.“