Sú tillaga að kaupréttaráætlun fyrir starfsmenn Símans sem lögð verður fyrir hluthafafund fyrirtækisins klukkan þrjú í dag verður breytt frá tillögu stjórnar Símans sem tilkynnt var um í ágúst síðastliðnum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Frá því hefur verið sagt að sex lífeyrissjóðir gerðu athugasemdir við tillögu að kaupréttaráætluninni þar sem þeim þótti hún of ívilnandi á kostnað eigenda fyrirtækisins. Fram kemur í Morgunblaðinu að eftir þessa gagnrýni hafi verið ákveðið að breyta tillögunni með þeim hætti að gildistími kaupréttar starfsmanna verði styttur og í stað fimm ára verði miðað við þrjú ár.

Lífeyrissjóðunum þótti óeðlilegt að gengið væri fastsett fimm ár fram í tímann, í stað þess að taka breytingum til samræmis við þróun á markaðsverði fyrirtækisins á tímabilinu. Það gæti leitt til þess að starfsfólki fyrirtækisins væru afhentir hlutir undir markaðsverði og með því skertust eignir hluthafa í félaginu.