„Ég var með fyrirtækið mitt í einkahlutafélagi en endurskoðandinn sagði mér að skipta yfir í samlagsfélag. Þetta er því engin breyting,“ Egill Einarsson, einnig þekktur sem Gillzengger eða Þykki, aðspurður um nýskráð félag sitt, Fjarþálfun slf. Egill hefur rekið Fjarþjálfun í um tvö og hálft ár. „Ég var búinn að hugsa um fjarþjálfunina allt frá því að ég byrjaði í íþróttafræði í HR, það vantaði eitthvað fyrir fólk sem vill ekki vera með einkaþjálfara hangandi yfir sér og borga 50 þúsund fyrir það. Þá varð heimasíðan fjarthjalfun. is til.“

Á einkaleyfið

Egill var fyrstur til bjóða þjónustu líkt og fjarþjálfun er. „Síðan þá er auðvitað annar hver einkaþjálfari kominn með þetta. En ég er með einkaleyfi fyrir nafninu Fjarþjálfun. Hingað til hef ég þó ekki verið með leiðindi út af því, allavega ekki ennþá. Enda get ég ekki einn séð um alla Íslendinga,“ segir Egill. Hann bætir við að nóg sé að gera og að vinnudagurinn sé þessa dagana frá 8-23. „Ég á ekkert líf. Ég man ekki hvenær ég fór í bíó síðast. Það er reyndar mjög mikið að gera á fyrstu mánuðum ársins. Þegar sólin kemur þá nennir fólk ekki að hreyfa sig og þá róast.“