Newt Gingrich ætlar að draga sig úr keppninni um að verða forsetaframbjóðandi Repúblikana í væntanlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Formlega mun Gingrich gera þetta á morgun, en hann greindi stuðningsmönnum sínum frá ákvörðuninni í gegnum myndband, sem birt var á vefsíðu hans í dag. Er nú fátt sem getur komið í veg fyrir að Mitt Romney verði frambjóðandi Repúblikana, en Gingrich gekk þó ekki svo langt að lýsa yfir stuðningi við Romney. Hann sagði hins vegar að nauðsynlegt væri að koma Bandaríkjaforseta, Barack Obama, frá völdum.

Gingrich gaf reyndar sterklega í skyn í síðustu viku að hann myndi hætta í dag, en hann tapaði í forkosningunum í Delaware-ríki, þar sem hann hafði eytt miklum tíma og fé. Kom yfirlýsingin í dag því ekki öllum á óvart.