Alcoa Fjarðaál hefði ekki greitt vexti yfir viðmiðum nýrra laga um í hve miklum mæli megi nýta vaxtagreiðslur til að lækka tekjuskattsstofn félaga árið 2016.Lagabreytingin kemur fyrst til framkvæmda vegna tekna sem verða til á þessu ári og er álverið með til skoðunar hver áhrifin verða á reksturinn.

Lögin voru sett til að girða fyrir að hagnaði sé komið úr landi í formi vaxtagreiðslna til erlendra móðurfélaga. Undanþága hvað varðar lánveitingar frá íslenskum móðurfélögum verður felld úr gildi um áramótin. KPMG og Samtök atvinnulífsins telja að það gæti haft í för með sér aukinn fjármögnunarkostnað fyrir fjölda íslenskra fyrirtækjasamstæðna, þar sem öll félög innan samstæðu eru skattlögð og skráð hér á landi. Embætti ríkisskattstjóra segir að ekki liggi fyrir til hve margra félaga lagaákvæðið muni ná til.

Lögin voru sett á síðasta ári og eiga að taka á því sem er kallað þunn eiginfjármögnun. Slíkt gengur yfirleitt þannig fyrir sig að erlend móðurfélög, sem oftar en ekki eru staðsett á lágskattasvæðum, lána dótturfélögum í öðru landi umtalsverðar fjárhæð­ir sem hefur í för með sér að stór hluti af rekstrarhagnaði dótturfélagsins rennur til erlenda móð­urfélagsins í formi vaxtagreiðslna. Þetta hefur í för með sér að dótturfélagið skilar minni hagnaði eða jafnvel tapi og þar með lækkar það tekjuskattsstofn dótturfélagsins. Þannig er tekjuskattsstofninn fluttur í gegnum vaxtagreiðslur til svæðis þar sem skattgreiðslur eru lægri.

Lögin kveða á um að fyrirtæki geta ekki dregið vaxtagjöld frá tekjuskattsstofni umfram 30% af EBITDA félaga, séu vaxtagjöldin yfir 100 milljónum króna á ári. Undanþága er frá ákvæðinu ef eiginfjárhlutfall félagsins er innan við tveimur prósentustigum lægra en eiginfjárhlutfall samstæðu sem félagið tilheyrir eða ef lánveitandinn ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Ekki er óheimilt að greiða meira en 30% af EBITDA í vaxtagjöld, en vaxtagjöldin umfram viðmiðunarmörkin munu hins vegar ekki dragast frá tekjuskattsstofni.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, bendir á að í fjárfestingasamningum álvera sé ákvæði um að óheimilt sé að breyta lögum um frádráttabærni vaxta frá tekjuskatt gagnvart álverunum, á gildistíma fjárfestingasamninganna. Því kunni að vera að álver sem ákvæðið nái til beri fyrir sig ákvæði fjárfestingasamninganna.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa fjarðaáls, segir að vaxtakostnaður Alcoa hafi hækkað á síðasta ári eftir að móð­urfélaginu í Bandaríkjunum var skipt í tvö félög. „Þegar Alcoa Inc. var skipt upp í tvö fyrirtæki árið 2016 breyttist lánshæfi fyrirtækisins og því hækkuðu vextir á lánum okkar. Vert er að taka fram að vextir á innri lánum okkar eru þó mjög hagstæðir og voru 3,79% á síðasta ári en 1,19% árið 2015,“ segir Dagmar. „Á árunum 2014 og 2015 voru vaxtagjöld okkar um eða innan við 25% af EBITDA hagnaði,“ bætir hún við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .