Borgfirðingurinn, fjölmiðlamaðurinn og sjónvarpsstjarnan Gísli Einarsson hlaut í dag viðurkenninguna „Brautryðjandinn 2014“ á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi atorku og hugvit á sviði verðmæta- og nýsköpunar. Þetta er í annað sinn sem viðurkenningin er veitt, en viðurkenningin 2013 kom í hlut Siglfirðingsins og athafnamannsins Róberts Guðfinnssonar fyrir lofsvert framtak og uppbyggingu á Siglufirði síðustu ár.

„Gísli hefur á sinn einlæga hátt náð vel inn á heimili landsmanna með efni, sem ég held að við höfum öll áhuga á. Það eru oft jákvæðu fréttirnar af hugvitsmönnunum sem eru að koma fram með alls konar nýstárlegar lausnir, af fyrirtækjum sem eru að feta nýjar slóðir t.d. með nýstárlegri nýtingu hráefna og af almenningi alls staðar af að landinu sem er að vinna á jákvæðan hátt við það að auka lífsgæðin í landinu,“ sagði Sigríður við tækifærið og minnti á að í lögum um Nýsköpunarmiðstöð Íslands væri stofnuninni einmitt ætlað að „styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu“.