Breytingar hafa átt sér stað upp á síðkastið í útibúaneti Íslandsbanka.

Gísli Elvar Halldórsson hefur verið ráðinn útibússtjóri bankans í Lækjargötu. Gísli Elvar hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans í um 12 ár og var áður aðstoðarútibússtjóri á Kirkjusandi. Hann er með próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands með viðskiptafræði sem aukagrein og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun. Hann mun einnig leiða fyrirhugaða sameiningu útibúanna í Lækjargötu og Eiðistorgi á Granda.

Hannes Guðmundsson, sem verið hefur útibússtjóri í Lækjargötu sl. tíu ár, færir sig um set og hefur hafið störf sem viðskiptastjóri í Einkabankaþjónustu VÍB. Hannes hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en hann var framkvæmdastjóri Securitas og Pennans áður en hann hóf störf hjá Íslandsbanka.

Þá hefur Þórður Kristleifsson verið ráðinn aðstoðarútibússtjóri á Kirkjusandi. Þórður hefur meðal annars starfað sem ferða- og atvinnumálafulltrúi hjá Dalvíkurbyggð og sem verkefnastjóri við byggingu Hótel Búða á Snæfellsnesi. Hann hóf starf hjá bankanum 2007 sem fyrirtækjaráðgjafi og hefur síðustu ár verið lánastjóri í útibúinu á Kirkjusandi. Hann er viðskiptafræðingur og kennari að mennt.